Anton Chekhov

Anton Pavlovich Chekhov var rússneskur smásagnahöfundur, leikritaskáld og læknir. Var hann gríðarlega vinsæll í Rússlandi meðan hann lifði og er enn í dag eitt af stóru nöfnunum í rússneskum bókmenntum. Eins og flestir snillingar, þá lifir hann áfram í gegnum sögur sínar og leikrit þrátt fyrir að yfir hundrað ár séu liðin frá dauða hans.

Anton Chekov fæddist 29. janúar árið 1860 í Taganrog í Suður Rússlandi. Faðir hans átti og rak þar verslun. Var faðir hans mikill trúmaður og uppeldið var strangt. Anton var oft ekki sáttur við hann og vilja margir meina að hræsnisfullar persónur í sögum hans og leikritum séu í grunninn byggðar á föður hans. Móðir Antons var aftur á móti mildari manneskja og skemmti börnum sínum oft með því að segja þeim sögur. Í bréfum Antons frá síðari tímum kemur fram að hann hafi ekki átt hamingjuríka æsku og nánast upplifað sig sem fanga örlaganna.

Árið 1876 varð faðir Antons gjaldþrota og fjölskyldan flúði til Moskvu, öll nema Anton sem varð eftir til að ljúka námi sínu og ganga frá málum varðandi þrotabúið. Dvaldi hann þar áfram í þrjú ár og lauk námi, sem hann þurfti að kosta sjálfur. Eitt af því sem hann tók sér fyrir hendur til að greiða götu sína þá var að skrifa stuttar greinar í blöð. Notaði hann þessi ár líka til að lesa mikið af heimsbókmenntunum. Allt sem hann vann sér inn og þurfti ekki að nýta í brýnustu nauðsynjar sendi hann til Moskvu fjölskyldunni til stuðnings.

Eftir að hann lauk grunnnámi á æskuslóðum flutti hann til fjölskyldunnar í Moskvu árið 1879 og hóf að nema þar læknisfræði. Þurfti hann að leggja drjúgt af mörkum til uppihalds fjölskyldunnar auk þess sem hann mátti standa straum af öllum kostnaði við nám sitt. Til þess að gera það hélt hann uppteknum hætti og skrifaði stutta, gamansama pistla um rússneskan samtíma í blöð sem nutu töluverðra vinsælda. Er með ólíkindum hvað hann gat skrifað mikið samhliða náminu.

Árið 1884 útskrifaðist hann sem læknir, en hann starfaði alla tíð sem læknir samhliða skrifunum og leit fyrst og fremst á sig sem slíkan. Ekki skilaði það honum samt miklum tekjum og hann t.a.m. sinnti fátækum án þess að taka nokkuð fyrir það. Áfram voru það skrifin sem skiluðu honum mestum tekjum. Vinsældir pistla hans urðu til þess að hann fékk vinnu við stærri blöð og við það jukust tekjur hans enn frekar. Fljótlega eftir að hann útskrifaðist sem læknir var hann farinn að hósta blóði og áttaði sig á að hann var veikur af berklum. Hélt hann því þó leyndu fyrir fjölskyldu sinni framan af.

Hann var á þessum árum farinn að skrifa heilsteyptar sögur sem vöktu mikla athygli og gagnrýnendur lofuðu í hástert. Þegar honum urðu hæfileikar sínir betur ljósir í listrænum skilningi fór hann að vanda sig enn frekar við skrifin og árið 1887 gaf hann út smásagnasafn og hlaut fyrir það hin virtu Pushkin verðlaun.

Það sama ár var hann svo beðinn um að skrifa leikrit, sem hann og gerði, en það var leikritið Ivanov. Skrifaði hann það á hálfum mánuði. Sló leikritið í gegn og var mært sérstaklega fyrir mikinn frumleika.

Árið 1889 lést bróðir hans, Nikolai, úr berklum og hafði það mikil áhrif á Anton. Fjallar sagan A Dreary Story um það.

Á þeim tíma var bróðir hans Mikhail að læra lögfræði og fékk það verkefni m.a. að kynna sér aðstæður í fangelsum. Fékk Anton þá mikinn áhuga á meðferð og endurhæfingu fanga. Leiddi sá áhugi hans til ferðar til fanganýlendunnar á Sakhalín eyju (norður af Japan) þar sem hann tók viðtöl við þúsundir fanga. Var hann þar í um þrjá mánuði og þykja bréfin sem hann skrifaði og sendi þaðan með því besta sem hann skrifaði. Meðferð fanganna í nýlendunni vakti með honum mikla reiði. Um rannsóknir sínar skrifaði hann ítarlegar skýrslur sem gefnar voru út 1893 og 1894. Fór hann þar fram á að yfirvöld tækju sig á og ynnu að gagngerum umbótum í þessum málum. Söguna Morðið skrifaði hann undir áhrifum frá dvöl sinni í fangabúðunum.

Árið 1892 keypti Anton sér lítið sveitasetur í Melikhovo, sem er um 50 km sunnan við Moskvu. Þar bjó hann með fjölskyldu sinni fram til 1899. Tók hann virkan þátt í samfélaginu þar í kring og hjálpaði fátækum og sjúkum. Fyrir hans tilstilli var komið á fót þremur skólum og slökkviliði. Auk þess var heilsugæsla aukin til muna.

Mikhail bóðir Antons hefur sagt svo frá að þegar Anton fluttist til Melikhovo hafi fátæklingar og sjúkir komið í hópum heim til þeirra í leit að aðstoð og tók Anton á móti öllum og gerði hvað hann gat til að hjálpa.

Fljótlega hafði hann svo mikið að gera við að liðsinna fólki að hann nánast hætti að hafa tíma til að skrifa. Þessi reynsla hans skilaði sér þó inn í skrif hans og auðgaði þau.

Árið 1894 byrjaði hann á leikritinu Máfurinn. Var það svo frumsýnt árið 1896 og hlaut afleita dóma og móttökur. Var Anton vonsvikinn yfir því og ákvað að hætta að skrifa leikrit. Það voru þó ekki allir sammála um að leikritið væri slæmt og árið 1898 var það sett upp í Moskvu í leikstjórn Stanislavskis þar sem það hlaut mun betri viðtökur.

Árið 1897 höfðu berklarnir ágerst mikið og Anton var orðinn mjög veikur. Var honum þá ráðlagt að skipta um umhverfi og breyta lífi sínu. Í kjölfarið keypti hann land á Jöltu, byggði þar hús og flutti þangað ásamt móður sinni en faðir hans lést árið áður. Virðist honum aldrei hafa liðið vel á Jöltu og ferðaðist mikið. Á þeim tíma umgekkst hann mikið af listamönnum og var m.a. góður vinur Maxíms Gorkís og Tolstoys.

Árið 1901 kvæntist Anton Olgu Knipper. Var hjónaband þeirra um margt sérstakt, en hún bjó lengst af í Moskvu, en hann á Jöltu.

Árið 1904 drógu berklarnir hann til dauða. Var hann þá með virtustu rithöfundum Rússa og nánast bara Tolstoy vinsælli en hann.

Verk Chekovs hafa lifað áfram og eru lesin enn í dag. Hefur still hans og efnistök leynt og ljóst haft áhrif á marga kunna rithöfunda. Má þar nefna höfunda á borð við James Joyce, Virginiu Wolf, Katherine Mansfield, George Bernard Shaw og Ernest Hemingway. Vilja margir meina að Chekov sé einn fremsti smásagnahöfundur sem uppi hafi verið þó slíkar staðhæfingar telji venjulegast lítið. Sjálfur sagði Chekov að verk hans yrðu einungis lesin í sjö ár frá dauða hans. Eftir það myndu þau gleymast.

Stíll hans er þó oftast látlaus, en styrkur hans felst einkum í því sem hann velur að segja og kannski enn frekar í þögnunum og því sem hann velur að segja ekki.